Að leita leiða til að gera hlutina örlítið „grænni“ er vinsæl hugsun í dag. Frumkvöðlar, fyrirtæki og stjórnmálaflokkar berjast við það að bjóða fram sínar grænustu hugmyndir. Markaðssetning snýst um að ýta undir græna, vistvæna og umhverfisvæna kosti. Það er auðvitað vel ef eitthvað stendur bakvið fullyrðingar um þessa grænu kosti.
En eru mörg okkar ekki bara frekar græn (lesist: einföld) þegar kemur að þessum fullyrðingum?
Í síðustu viku var vakin athygli okkar á því að fullyrðingar á vefsíðum sem selja umhverfisvænar vörur eða þjónustu reyndust ýktar, villandi eða beinlínis rangar. Þar var um að ræða 42% tilvika þar sem neytendur voru blekktir um kaup á vöru eða þjónustu sem ekki reyndist vera eins umhverfisvæn og auglýst var.
Þetta hlutfall er óboðlegt og sýnir okkur að við þurfum að vera vakandi, sem neytendur, fyrir fullyrðingum um umhverfisvænni, vistvænni og grænni vörum. Ég sem neytandi viðurkenni að það er auðvelt að glepjast því öll viljum við auðvitað stuðla að því að vernda vistkerfi og líffræðilegan fjölbreytileika, vernda umhverfi og nýta auðlindirnar okkar á sjálfbæran máta.
Það er því þægilegt að grípa til þessara vinsælu frasa til slagorða í kosningabaráttunni. Grænt hitt og grænt þetta. Þetta ber að varast. Skoða þarf hvað liggur raunverulega á bak við fullyrðingar um grænni kosti, eins og athugun Evrópusambandsins bendir svo greinilega á. Það er á ábyrgð okkar að láta ekki glepjast.
Það er auðséð að leggja þarf áherslu á umhverfisvernd í atvinnulífinu almennt. Auka þarf einnig vitund og ábyrgð einstaklingsins í umhverfismálum almennt. Stuðla að hraðari orkuskiptum. Stuðla að betri nýtingu orku og auðlinda.
En orðum þurfa að fylgja aðgerðir. Þessum framangreindum grænu áherslumálum þýðir að þeim þurfa að fylgja aðgerðir eins og til dæmis stóraukin innviðafjárfesting í raforku, vistvænum almenningssamgöngum, fjarskiptum og menntun í tæknigreinum.
Í lokinn, af því að ég bý á landsbyggðinni og ber því hag landsbyggðaríbúa fyrir brjósti mér, þá tel ég að greina þurfi hvaða hvata megi koma á til að stuðla að því að fyrirtæki sæki út á land. Dreifðari byggð hlýtur að stuðla að grænni framtíð Íslands, eða hvað? Kannski er þetta bara enn einn græni frasinn..