Íslendingar kunna að vera heimsmeistarar. Ekki að það sé sérstaklega spennandi í þessu tilviki. Íslendingar virðast lengi hafa verið ötulir talsmenn skriffinnskunnar og þannig höfum við bakað okkur þau vandræði að regluverkið okkar er risavaxið ferlíki. Íþyngjandi regluverk mannanna hefur sniðið atvinnulífinu þröngan stakk og hamlað samkeppnishæfni landsins.
Reglurnar eiga að styðja við verkið en ekki hindra það. Það er nákvæmlega kjarninn í vandanum. Regluverkið okkar, sérstaklega er snýr að atvinnulífinu, reynist of íþyngjandi.
Vandinn er ekkert einungis vegna þess að ráðherrar og þingmenn eru svo duglegir að setja lög og reglur, heldur má vera að regluverkið reynist þungt vegna þess hve margir aðilar koma að samningu reglna. Hér eru sveitarfélög hvert um sig að setja sér reglur og jafnvel hafa hinar ýmsu opinberu stofnanir heimild til að setja sér heilmargar reglur.
Skilvirkni og hagkvæmni eru lykilatriði í samkeppnishæfni landsins. Það felast gríðarleg fjárhagsleg verðmæti í því að einfalda regluverkið. Sveigjanlegra umhverfi atvinnulífsins mun efla samkeppnishæfni landsins, auka framleiðni og hagvöxt og skapa fleiri störf.
Einföldum málið og verum í takt við tímann. Að setja upp eyðublað á vefsvæði er svo einfalt mál að það er hlægilegt að öll eyðublöð í opinberri þjónustu séu ekki komin á rafrænt form. Gefum aðeins í.
Rafrænar lausnir í opinberri þjónustu er einnig lykillinn að því að auka samkeppnishæfni landsbyggðarinnar, þar sem ekki er hægt að tryggja útibú eða þjónustu á staðnum.
Lækkun. Einföldun. Útrýming á landsbyggðarskatt.
Stikkorðin ættu duga hér í bili. Skattkerfið er út af fyrir sig efni í aðra grein.
Covid-viðspyrnan krefst útgjalda. Allar þær hugmyndir að stórauka umsvif ríkisins og að ráða skuli stórt hlutfall atvinnulausra í opinber störf rímar illa saman við hallann á ríkisrekstrinum. Gera þarf frekar ráð fyrir því að ríkið tryggi grunnþjónustu. Augljóslega þarf að ákveða hver þjónusta ríkisins á að vera til frambúðar og standa þarf við þær skuldbindingar.
Það er eins og fólk átti sig ekki á því að einhver þarf að lokum að borga brúsann. Sterkt atvinnulíf er einmitt forsenda þess að ríkið afli sér tekna til að mæta auknum útgjöldum.
Styrkjum atvinnulíf með einfaldara regluverki og bættu skattkerfi.