Snúum vörn í sókn

Mikil verðmætasköpun er á landbyggðunum. Hugmyndaauðgi og framkvæmdarhugur í íbúum landsbyggðarinnar er stigvaxandi. Á landsbyggðunum eru gæðin, þar er sjávarútvegurinn, raforkuframleiðslan og auðlindirnar okkar.

Það eru tækifæri falin í því að berjast fyrir fjármagni til jafns við þá verðmætasköpun sem á sér stað á landshlutanum. Það þarf að jafna leikinn milli höfuðborgarinnar og landsbyggðanna. Markmið og hagsmunir landshlutans eru því ekki ósamrýmanleg. Til að bæta lífsgæði íbúanna þarf að styrkja svæðin utan höfuðborgarinnar.

Tækifæri til framhaldsmenntunar

Við viljum að sjálfsögðu byggja menntakerfið okkar upp á landsvísu. Það þarf að tryggja jafnt aðgengi að menntun óháð efnahag og búsetu. Það er mikilvægt byggðamál að stefna að því að aðgengi að háskólanámi sé jafnt um allt land. Það eru mikil tækifæri í því að auka samstarf og tengingar Háskólans á Akureyri við Austurlandið. Það eru þannig ekki einungis hagsmunir Norðurlands að Háskólinn á Akureyri eflist og fái aukið fjármagn til að hefja nám í tæknigreinum, heldur eru það mjög svo samrýmanlegir hagsmunir byggða á Austurlandi einnig.

Auknar áherslur á góðan grunn til rannsóknar- og vísindastarfsemi eru lykillinn að auknum lífsgæðum. Möguleikar á fjölbreyttum störfum opnast um leið og menntunarstigið hækkar. Valkostum um störf óháð búsetu er sífellt að fjölga í kjölfar heimsfaraldurs. Það er jákvætt skref í rétta átt, en með störfum óháðum búsetu gerum við fleirum kleift að búa í heimabyggð í stað þess að þurfa að sækja hálaunastörfin suður.

Samgöngurnar

Þá komum við að máli málanna. Samgöngur þurfa einfaldlega að vera í lagi svo að fólk sjái möguleikana í því að búa á landsbyggðunum. Samgöngur eru stór hluti þess hvar fólk velur sér búsetu. Ég er ekki viss um að hagsmunir okkar á Norðausturlandi séu svo ósamrýmanlegir að þessu leyti.

Við getum karpað um forgangsröðun á einhverjum vegum eða göngum endalaust, en það er alveg ljóst að saman stöndum við sterkari og saman eigum við frekar kost á því að sækja fjármagn til verkanna. Hagsmunir okkar liggja þannig einnig í því að byggja upp flugvelli landshlutans. Árangur í uppbyggingu á Akureyrarflugvelli útilokar ekki að það náist árangur í uppbyggingu á Egilsstaðaflugvelli. Við eigum að vera stórhuga og sækja fram af meiri ákefð. Það ætti því að vera markmiðið að leggjast öll á árarnar í stað þess að skipta okkur í fylkingar og hugsanlega þannig veikja málstaðinn.

Saman í sókn

Að lokum vil ég nefna að sóknarfæri landshlutans eru mörg, það er okkar hlutverk að sækja fram. Möguleikar í rafrænni opinberri stjórnsýslu eru til dæmis miklir og mun jafna aðgengi að þjónustu sem byggð er upp í höfuðborginni. Við þurfum að samþætta hagsmuni okkar og vinna að verkefnunum af heilindum. Ég trúi því að til verksins þurfi gott fólk sem sér ljósið í samvinnunni.